Innlent

Íslenskt bygg í þorrabjórnum

Ölgerðin Egill Skallagrímsson bruggar þorrabjór sinn þetta árið að hluta úr íslensku byggi. Íslenskt bygg hefur ekki áður verið notað til bjórframleiðslu en landbúnaðarforystan sér fram á bjarta tíma í þessum efnum og vonast til að þetta sé aðeins upphafið að einhverju meira. Byggið sem Ölgerðin notast við er ræktað á bænum Leirá í Borgarfirði hvar Ásgeir Kristinsson er bóndi. Hann hefur ræktað bygg í átta ár og það voru hátt kjarnfóðurverð, vilji til að nýta land og tæki og áhugi á hvort hægt væri að bæta ræktuninni við annan búrekstur sem ráku hann útí þetta. Sjálfur er Ásgeir ekki mikill bjórþambari. "Nei ég er það nú ekki en finnst gott að smakka hann til tilbreytingar eins og annað." Engu að síður er hann ánægður með bjórinn sem að hluta til er bruggaður úr bygginu af ökrum Leirár. "Já, ég get ekki sagt annað. Þetta höfðar ágætlega til mín." Hann vonast til að framhald verði á bjórbruggun úr íslensku byggi en segir það undir neytendum komið. "Við skulum sjá til um viðtökurnar, hvort ég er einn um þennan smekk eða hvort fleiri hafa svipaðan smekk," segir byggbóndinn sem hlakkar til þorrans sem hann segir tilbreytingu í sammdeginu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×