Innlent

Landsliðið og strákarnir okkar

Aðeins tíu til fimmtán manns ætla til Túnis að fylgjast með Heimsmeistaramótinu í handbolta sem hefst á sunnudag. Ferðaskrifstofan Kuoni og Flugleiðir bjóða upp á hópferð á mótið en áhuginn er takmarkaður. Tómas Tómasson hjá Kuoni segir þátttökuna minni en menn hafi gert sér vonir um. Boðið var upp á heimferð 4. og 7. febrúar og kusu flestir fyrri ferðina. Af því má ráða að þeir sem þó ætla utan búist ekki við að íslenska liðið leiki um verðlaunasæti. Fjöldi iðkenda í yngri flokkum félagsliðanna þykir ágætur mælikvarði á handboltaáhugann í landinu. Lausleg athugun bendir til að nokkur fækkun hafi orðið í röðum ungra handboltamanna og röktu forráðamenn félaganna sem rætt var við það til árangurs landsliðsins á stórmótunum tveimur á síðasta ári. Liðið lék á Evrópumótinu í janúar og hafnaði í þrettánda sæti og á Ólympíuleikunum í ágúst þar sem níunda sætið náðist. Þór Björnsson, gamall refur úr markinu hjá Fram og nú íþróttafulltrúi félagsins, vekur þó athygli á að árangurinn einn og sér skipti ekki öllu. Í tengslum við EM í fyrra efndi Íþróttabandalag Reykjavíkur til átaks sem skilaði dágóðum fjölda krakka á æfingar og ekki skemmdi fyrir að KB banki og Visa gáfu hverjum og einum handbolta að gjöf. Strákarnir okkar Áhugi á íþróttagreinum birtist einnig í fyrirspurnum og viðskiptum í íþróttaverslunum. Athuganir Fréttablaðsins leiddu í ljós að heldur lítið er spurt um sérhæfðar vörur til handboltaiðkunar og til dæmis fannst engin verslun sem taldi ástæðu til að bjóða íslenska handboltalandsliðsbúninginn til sölu. "Almennt virðist ekki mikill áhugi á handbolta og það er hending ef spurt er um landsliðsbúninginn," segir Valgeir Ólafsson í Intersport í Smáralind og svör annarra íþróttavörukaupmanna voru á sömu lund. Bjarni Felixson íþróttafréttamaður segist ekki merkja mikinn handboltaáhuga í samfélaginu þessa dagana en bendir á að vanalega vakni hann ekki fyrr en mót eru hafin og liðið hafi farið vel af stað. "Íslendingar byrja ekki að fylgjast með og hvetja sína menn fyrr en vel gengur, öfugt við margar aðrar þjóðir sem einmitt styðja lið sín þegar þau þurfa virkilega á því að halda," segir Bjarni sem fyrstur notaði hugtakið "strákarnir okkar" um handboltalandsliðið. Hann minnir helst á að það hafi verið eftir níu marka sigur á Dönum á Heimsmeistaramótinu í Sviss 1986 sem hann tók sér þessi orð í munn. Síðan eru þeir strákarnir okkar ef vel gengur en annars bara handboltalandsliðið. Hæðir og lægðir Uppgangur handboltans á Íslandi var hvað mestur þegar Bogdan Kowalzyk þjálfaði liðið. Undir hans stjórn hafnaði það í sjötta sæti á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984 og á Heimsmeistaramótinu í Sviss tveimur árum síðar. Þjóðinni þótti þessi lágvaxni en jafnframt stórgerði Pólverji forvitnilegur og ekki spillti fyrir að leikmenn kvörtuðu sáran undan miklu álagi á æfingum. Fjölmiðlar fylgdust grannt með undirbúningi liðsins fyrir stórmót og vissu allt um leikmenn, til dæmis hæð, þyngd og skónúmer. Mæður leikmanna og eiginkonur röktu kosti þeirra á síðum glanstímarita og hvert mannsbarn kunni textana við hvatningarlögin sem samin voru. En svo hallaði undan fæti og gengið hefur verið upp og niður síðan. Áhuginn varð vitaskuld gríðarlegur þegar ljóst varð að góður árangur var í aðsigi á B-heimsmeistarakeppninni í Frakklandi 1989 og vonast var til að Íslendingar yrðu loksins almesta handboltaþjóð í heimi þegar okkur hlotnaðist að halda Heimsmeistaramótið 1995. Jafnvel svartsýnustu menn trúðu að Ísland gæti hreppt sjálfan heimsmeistaratitilinn á heimavelli en heldur fór það á annan veg og 13. - 16. sæti varð okkar hlutskipti. Þó að áhugi á handbolta mælist í minna lagi nú, nokkrum dögum fyrir Heimsmeistaramót, er ekki þar með sagt að landsmenn ætli ekki að fylgjast með. Greinilegt er á ölllu að það er íslenska landsliðið sem er á leið til Túnis en aldrei að vita nema þaðan komi strákarnir okkar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×