Innlent

Bjór úr íslensku byggi

Nýtilkomin byggrækt er bændum ekki aðeins drjúg búbót í stað innflutts fóðurbætis heldur er nú farið að brugga Þorrabjór, sem nú er kominn á markað, úr íslensku byggi.  Talsmenn Ölgerðar Egils Skallagrímssonar segja að að þetta sé fyrsti íslenski bjórinn sem bruggaður er úr heimaræktuðu byggi hér á landi. Spurning er þó hvort hinn eini sanni Egill heitinn Skallagrímsson myndi taka undir það, enda er vitað að hann stundaði byggrækt í stórum stíl, m.a. til ölgerðar. Örnefni eins og Akranes og Akrar á Mýrum bera til dæmis vott um byggrækt fyrr á öldum, og það í grennd við Borg á Mýrum. En hvað sem því líður hefur byggrækt legið niðri í aldir, eða þar til fyrir nokkrum árum að íslenskir bændur fóru að rækta bygg á ný og er byggið í Þorrabjórinn fengið úr byggrækt Ásgeirs Kristinssonar, bóna á Leirá í Borgarfirði. Sýnist íslenska byggið ekkert gefa því erlenda eftir því Þorrabjórinn er sagður bragðmikill lagerbjór með mikilli fyllingu og styrkleika upp á 5,6 prósent. Framhald gæti orðið á bjórframleiðslu úr íslensku byggi því 410 aðilar ræktuðu bygg hér á landi í fyrra og nam uppskeran 10.600 tonnum. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×