Innlent

Fela ekki lengur ólöglega vinnu

Starfsmenn Samiðnar, sambands iðnfélaga, hafa verið að sjá mörg tilvik á undanförnum vikum, þar sem grunur leikur á að um ólöglega atvinnustarfsemi útlendinga sé að ræða. Finnbjörn A. Hermannsson segir að sú breyting hafi orðið, að áður hafi þessir ólöglegu menn unnið í öllum skúmaskotum, en nú séu þeir farnir að vinna fyrir opnum tjöldum. "Við erum búnir að fara á ótal marga vinnustaði síðan í desember," sagði hann. "Menn eru orðnir svo öruggir í þessu því það er aldrei hróflað við einu eða neinu. Nú eru þeir farnir að vinna á dagvinnutíma inni í almennum byggingum." Finnbjörn sagði, að Samiðn hefði í desember hafið könnun á þessari starfsemi með ólöglegt erlent vinnuafl og stæði hún fram á vorið. Hlutur erlenda vinnuaflsins væri aðeins hluti af þeirri könnun, því hún næði til þess hverjir væru almennt að vinna störf iðnaðarmanna. Hörgull væri á þeim þessa dagana og þá færu aðrir í störfin. Finnbjörn sagði að könnunin væri bundin við suðvesturhornið. Hefði verið farið á allmarga vinnustaði og málið verið kannað. Því yrði haldið áfram. Að þessari könnun lokinni ættu að liggja fyrir staðreyndir um hversu mikið væri af ólöglegu vinnuafli í byggingariðnaði á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. Ef marka mætti það sem talað væri á vinnustöðum væri mjög mikið um þetta. "Við höfum ekki áhyggjur af stærri fyrirtækjum í þessu tilliti," sagði Finnbjörn. "Þau eru með sitt bókhald í lagi og leika ekkert svona hluti. Ef menn koma ólöglega inn í landið þá eru þeir vitanlega í svartri atvinnustarfsemi. Þeir taka laun sem ekki eru gefin upp. Stærri aðilar sem ætla að vera áfram á markaðinum bjóða sjálfum sér ekki upp á slíkt. Það eru þessir smákallar sem eru í þessum undanskotum. Þeir eru í smáverkum þar sem þeir geta látið hluti hverfa eins og vinnulaun og annað þess háttar. " Finnbjörn sagðist telja fulla ástæðu til að Alþýðusamband Íslands kæmi að þessu máli með Samiðn og athugaði fleiri greinar atvinnulífsins í þessu tilliti. Það hefði verið rætt við ASÍ, sem alls ekki hefði tekið illa í aðild að víðtækari athugun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×