Innlent

Vill styrkja þá eldri í vinnu

Félagsmálaráðherra stefnir að því að styrkja stöðu miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði. Kannanir sýna neikvæð viðhorf í garð þessa aldurshóps. Nefnd á vegum félagsmálaráðuneytis hefur fjallað um stöðu fólks á aldrinum 50 til 65 ára á vinnumarkaði og komið með tillögur um hvernig styrkja megi stöðu þeirra. Erlendar kannanir sýna að fólk er látið gjalda aldurs síns, hvort heldur með uppsögnum eða mismun í starfi. Ekkert bendir til að því sé öðruvísi farið hér á landi en rannsóknir vantar. Elín R. Líndal, formaður nefndarinnar, segir að vísbendingarnar séu allt í kringum okkur en þetta sé hvergi haldbært, hvorki í viðhorfskönnunum né öðru. Því sé áhugvert að rannsaka hvernig þessum málum sé háttað hér á landi. Samkvæmt könnun sem Gallup gerði að beiðni nefndarinnar eru vísbendingar um neikvæð viðhorf í garð þessa hóps. 46 prósent aðspurðra töldu að yngra fólk væri meira metið á vinnumarkaði en þeir sem eldri væru. Þá er hlutfall langtímaatvinnuleysis meðal eldra fólks langt umfram það sem gerist hjá þeim yngri. Árni Magnússon félagsmálaráðherra segir að nefndin leggi til að hleypt verði af stokkunum sérstöku verkefni sem standi yfir í fimm ár. Þar verði tekið sérstaklega á þessu, farið í rannsóknir á því hvernig staðan sé og ekki síst fræðslustarf. Hann hafi orðið við tillögum nefndarinnar og muni því skipa verkefnisstjórn fyrir verkefnið á næstu dögum. Starfið hefjist því strax.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×