Innlent

Hannes tekur við af Sigurði

Sigurður Helgason lætur af störfum sem forstjóri Flugleiða í vor en hann var nýverið kjörinn maður ársins í viðskiptalífinu af tímaritinu Frjálsri verslun. Hannes Smárason verður starfandi stjórnarformaður. Nýverið hefur Hannes Smárason styrkt stöðu sína í Flugleiðum verulega. Hann hefur keypt hlut Jóns Helga Guðmundssonar í Byko, hlut Baugs og fleiri og er orðinn ráðandi eigandi í félaginu. Áhugamenn um innbyrðis átök innan Flugleiða leiða að því getum að aukin völd Hannesar birtist í brotthvarfi Sigurðar. Sigurður Helgason tilkynnti starfsólki Flugleiða um brotthvarf sitt á starfsmannafundi í dag. Hannes Smárason, stjórnarformaður Flugleiða, segir það ekki tengjast nýlegum breytingum á eignarhaldi þess. Hann segir hins vegar ljóst að breytinga sé að vænta í kjölfar þessa. Hjá félaginu hætti maður sem hafi verið forstjóri þess í 20 ár og hafi mótað það eftir sínu höfði og sinni stefnu. Við slík umskipti hljóti að verða nokkrar breytingar á því hvernig félagið sé rekið dag frá degi. Aðspurður segist Hannes alls ekki sjá fyrir sér að félagið minnki umsvif sín, fækki ferðum eða þróist í átt að lággjaldaflugfélagi. Þvert á móti eigi að byggja á þeim góða grunni sem lagður hafi verið síðastliðin 20 ár. Sigurður Einarsson, forstjóri Flugleiða, segist ekki hafa verið rekinn. Hann hafi verið hjá fyrirtækinu í rúmlega 30 ár og þar af 20 í starfi forstjóra. Hann hafi sett sér þau markmið að vera að minnsta kosti 20 ár í starfinu. Hann sé sá aðili innan flugfélaga í heiminum sem hafi lengstan starfsaldur og líklega sé hann með einna lengstan starfsaldur af forstjórum stórra fyrirtækja á Íslandi. Gengið hefur verið frá því að Sigurður verði stjórn Flugleiða til ráðgjafar og aðstoðar á næstu árum en hann lætur af störfum í lok maí.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×