Innlent

Heimsmeistarar í dýrauppstoppun?

Íslendingar gætu eignast heimsmeistara í uppstoppun dýra á næstunni. Tveir hamskerar halda utan bráðlega með glæsilegan smyril og toppskarf í farteskinu í þeirri von að sigra heiminn. Stöð 2 tókuhús á öðrum þeirra og kynntist undraveröld uppstoppaðra dýra. Það er ævintýralegt fjölskyldulífið hjá börnum Steinars Kristjánssonar sem alast upp innan um alls kyns uppstoppuð dýr. Steinar segist vera með veiðidellu og hefur stoppað upp af mikilli ástríðu í nokkur ár, hvort sem það eru bjarndýr, fiskar, eða fuglar. Næsta verkefni er að stoppa upp stærðarinnar túnfisk sem veiddist við landið fyrir skömmu. Og það er engin smá skepna, 2x2 metrar að stærð. Stefnan er sett á heimsmeistaramótið í Bandaríkjunum í lok mars ásamt Haraldi Ólafssyni, Evrópumeistara í uppstoppun fiska. Steinar ætlar með toppskarf og smyril á mótið og Haraldur sennilega með 2-3 fiska. Á mótinu koma saman þúsundir uppstoppara víða að úr heiminum. Steinar segir úrslitin ráðast á huglægu mati dómaranna, t.a.m. hvernig fjöðrunum er raðað saman, hvernig fiskurinn er málaður, hversu „lifandi“ dýrin eru og allt eftir því. Þótt Seinar ætli með toppskarf og smyril á mótið er lundinn vinsælastur hjá útlendingum en hann má kaupa uppstoppaðan fyrir 300 dollara. Íslendingar eru meira fyrir fiskinn og láta gjarnan stoppa upp stærstu laxana sína. En hver skyldi vera lykillinn að velgengni í uppstoppun? Jú, að láta dýrið vera „lifandi“.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×