Innlent

225 milljónir hafa safnast

110 milljónir króna söfnuðust í söfnuninni Neyðarhjálp úr norðri, viðamestu söfnun landsins, sem hófst á þriðjudag og lauk í beinni útsendingu sjónvarpsstöðvanna þriggja í gærkvöld. Alls hafa safnast 225 milljónir til þeirra samtaka sem verja munu söfnunarfénu í þágu þeirra sem eiga um sárt að binda eftir hamfarirnar í Asíu. Framlög samtaka og fyrirtækja voru mismunandi há en sérstaka athygli vakti að Jóhannes Jónsson í Bónus bauð hæst í teinóttu jakkafötin hans Björgólfs Guðmundssonar viðskiptajöfurs, 10 milljónir króna, en afhenti honum þau aftur til eignar. Elín Þ. Þorsteinsdóttir, verkefnisstjóri Neyðarhjálpar úr norðri, segist alls ekki hafa átt von á að svona há upphæð myndi safnast. Hún þakkar það ótrúlega góðri samvinnu alllra sem komu að verkefninu og segir að íslenska þjóðin geti verið ofsalega stolt yfir uppskerunni. Barnaheill, Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði kross Íslands, SOS-barnaþorp og UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, ráðstafa í samvinnu við sín alheimssamtök söfnunarfénu strax í þessari viku. Unnið er að brýnustu neyðaraðstoð fyrst en fjármununum verður svo varið í uppbyggingu á starfhæfu samfélagi og aðhlynningu fórnarlamba flóðbylgjunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×