Innlent

Björgunarsveit leitaði fimm manna

Björgunarsveitin Strákar frá Siglufirði kom fimm vélsleðamönnum til bjargar í gærkvöldi. Beiðni um aðstoð barst á fimmta tímanum í gær frá vélsleðamanni sem hafði orðið viðskila við fjóra félaga sína en mennirnir voru á leið frá Siglunesi í Héðinsfjörð. Mjög slæmt skyggni var á þessum slóðum og djúpur snjór. Maðurinn fannst á sjöunda tímanum og skaut hann meðal annars upp neyðarblysi til að beina björgunarsveitarmönnum að sér. Ekkert var hins vegar vitað um ferðir félaga hans. Klukkan rúmlega átta fundust fjórmenningarnir í slysavarnarskýli í Héðinsfirði þar sem þeir biðu aðstoðar. Þegar björgunarsveitarmenn komu á vettvang kom í ljós að tveir mannanna höfðu slasast lítilsháttar og þörfnuðust læknisaðstoðar. Þar sem færð var þung var ákveðið að fara á björgunarskipinu Sigurvini með lækni út í Héðinsfjörð og gekk ferðin vel. Komið var með mennina til Siglufjarðar laust fyrir miðnætti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×