Innlent

Lá bjargarlaus í klukkustund

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út til að ná í slasaðan mann á Esjunni fyrr í dag. Maðurinn, sem var einn á ferð, hrapaði í klettabeltinu við Þverfellshorn og hafði legið í um klukkustund að því er talið er þegar fólk gekk fram á hann og kallaði á aðstoð. Tilkynningin barst neyðarlínunni klukkan 13.45 og lagði sjúkralið þegar af stað. Vegna erfiðra aðstæðna á vettvangi var ákveðið að kalla til þyrlu sem kom fljótlega á staðinn. Sigmaður seig svo niður og bjó þannig um manninn að hægt var að hífa hann um borð. Flogið var með manninn, sem var marinn víða um líkamann, á slysadeildina í Fossvogi en ekki er vitað að svo stöddu hversu alvarleg meiðslin eru.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×