Innlent

Annað útkallið á hálfum sólarhring

Slökkviliðið á Akureyri var kallað út rétt fyrir hádegi í dag vegna elds sem logaði í húsi við Svalbarðseyri. Húsið er stórt gamalt steinhús sem ekki er búið í að staðaldri og var mannlaust þegar eldurinn kviknaði. Eldurinn reyndist ekki vera mikill en reykur var hins vegar kominn um allt hús og er enn verið að reykræsta. Grunur leikur á að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagnsofni. Þetta var annað útkallið hjá slökkviliðinu á Akureyri á hálfum sólarhring því laust fyrir klukkan ellefu í gærkvöld var það kallað út í bruna í íbúðarhúsi við Hafnarstræti  Íbúi á efri hæð hússins hafði orðið var við eld á neðstu hæðinni þar sem áður var skemmtistaðurinn H-100. Ung stúlka var flutt á slysadeild með reykeitrun. Lögreglan á Akureyri segir að henni hafi verið hjálpað út en hún hafi verið að skríða úr íbúð sinni af sjálfsdáðum. Hún var höfð til eftirlits á sjúkrahúsi í nótt en mun ekki vera alvarlega hrjáð af reyknum sem hún andaði að sér. Vel gekk að slökkva eldinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×