Innlent

Skíðasvæði opin víða um land

Allar skíðalyftur í Hlíðarfjalli á Akureyri eru opnar í dag frá klukkan 10 til 17 og skíðafæriband fyrir yngstu kynslóðina verður tekið í notkun. Göngubrautin er troðin, það er tveggja stiga frost og þrír metrar á sekúndu. Skíðasvæðið í Tindastóli við Sauðárkrók verður opið frá hádegi til klukkan 17. Þar er gott skíðafæri og logn en dálítill éljagangur. Allar lyftur á skíðasvæði Ísfirðinga verða opnaðar eftir hálftíma og verða opnar til 16. Þar er norðangola, 4 metrar á sekúndu, við frostmark, fínt skíðafæri og troðnar göngubrautir í Tungudal. Mjólkurbikarmót í öllum aldursflokkum hefst klukkan 12, fyrst fyrir 13 ára og eldri og fyrir hina yngri klukkan 13. Opið verður á skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins, Bláfjöllum, Skálafelli og í Hengli, til klukkan 17. Hæglætisveður er á svæðunum og eins stigs hiti. Þokuslæðingur af og til. Nýtt upplýsinganúmer skíðasvæðanna er 530 3000. Skíðasvæðið á Siglufirði opnaði klukkan 11 og þar verður opið til klukkan 16. Brekkur eru nýtroðnar, færi gott og frostið um tvær gráður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×