Innlent

Krefur Impregilo um 3 milljónir

Viðskiptafræðingur sem starfaði fyrir Impregilo hefur stefnt fyrirtækinu og krafist rúmra þriggja milljóna króna vegna vangoldinna laun og uppsagnarfrests. Fleiri dómsmál kunna að vera í undirbúningi vegna skrifstofustarfa fyrir fyrirtækið.  Í málinu sem tekið verður fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudag krefst maður sem starfaði fyrir fyrirtækið rúmra þriggja milljóna króna bóta vegna vangoldinna launa og uppsagnarfrests. Maðurinn réðist til starfa á skrifstofu Impregilo í Reykjavík en var fluttur austur eftir að framkvæmdir hófust. Þar reyndist vinnudagurinn vera átján klukkustundir á sólarhring, samkvæmt framburði mannsins, án þess að sérstök greiðsla kæmi fyrir yfirvinnu. Félagsmaður í Verslunarmannafélagi Austurlands leitar nú einnig réttar síns vegna en deilt er um hvort mánaðarlaun hans hafi staðist kjarasamninga. Ekki liggur fyrir hvort höfðað verður dómsmál vegna þess. Trúnaðarmaður starfsmanna hjá Impregilo kannar nú hversu margir erlendir starfsmenn hafi unnið við skrifstofu- og lagerstörf hjá fyrirtækinu án þess að greiða félagsgjöld í verslunarmannafélagið. Kristín Björnsdóttir, formaður félagsins, segir að einnig sé verið sé að athuga réttarstöðu erlends starfsfólks sem vinni störf sem heyri undir Verslunarmannafélagið. Fyrirtækið hefur borið því við að þetta fólk eigi að standa fyrir utan félagið þar sem að virkjunarsamningurinn nái ekki til þeirra. Kristín segir að þótt þetta starfsfólk heyri ekki undir virkjunarsamning eigi það að fá greitt samkvæmt íslenskum kjarasamningum verslunarmanna, samkvæmt skilningi verslunarmannafélagsins, en verið sé að skoða málið þessa dagana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×