Innlent

Svamla í söltum sjó fyrir söfnun

Félagar í Sjósundfélagi Íslands efna í dag til sjósundsmaraþons en framtakið er liður í landssöfnuninni Neyðarhjálp úr norðri. Að sögn Benedikts Lafleur, formanns Sjósundfélagsins, ætla sundmennirnir að skiptast á að vera í sjónum í stutta stund í einu þar sem sjávarhiti er afar lágur á þessum árstíma, aðeins um tvær gráður. Þrátt fyrir kuldann býst hann við að hátt í þrjátíu manns muni dýfa sér ofan í vatnið. "Við erum náttúrlega að synda til að leggja okkar af mörkum í landssöfnuninni en við erum líka að sýna fram á að það er hægt að vinna með náttúruöflunum þótt þau séu grimm eins og dæmin sanna, það er hægt að ganga til móts við þau við erfiðar aðstæður og líka finna paradísina hér á norðurhjara," segir Benedikt en hann hefur stundað sjósund í hálft annað ár og hefur aldrei verið hraustari. Kapparnir ætla að svamla um í sjónum fram eftir degi og getur fólk heitið á þá með því að hringja í söfnunarsímann, 755 5000.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×