Innlent

Verðbólga við vikmörk Seðlabanka

MYND/Vísir
Hækkun á vísitölu neysluverðs frá fyrra mánuði gengur þvert á spár greiningardeilda bankanna. Verðbólga nú 4%, sem við efri vikmörk verbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands, og greiningardeild Íslandsbanka telur líklegt að verðbólga fari upp fyrir vikmörkin á næstu mánuðum en hjaðni svo og verði 2,1% yfir þetta ár. Eftir því sem fram kemur í morgunkorni Íslandsbanka höfðu bankarnir spáð því að vísitalan myndi lækka um 0,1 til 0,3% en hún hækkaði um 0,08%. Þar kemur enn fremur fram að skekkju á spám megi skýra nær eingöngu með mikilli hækkun á húsnæðisverði. Markaðsverð húsnæðis hafi hækkað um 2,9% en Íslandsbanki hafi reiknað með 1,7% hækkun. Hækkun komugjalda, orkuverðs, leikskólagjalda, sjónvarpsáskriftar, skólagjalda, svo eitthvað sé nefnt, hafi þó einnig haft áhrif. Útsölur og lægra bensínverð vógu hins vegar upp á móti hækkununum og drógu þannig úr hækkun á neysluverðsvísitölu.  Verðbólga er nú 4% og hefur aukist um 0,1% frá því í desember. Segir í morgunkorninu að verðbólga hafi aukist verulega að undanförnu og afar líklegt sé að hún fari yfir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans á næstu tveimur mánuðum. Á móti verðbólguþrýstingi vegi hins vegar að gengi krónunnar hafi hækkað verulega undanfarið og sé nú mjög hátt. Miðað við óbreytt gengi krónunnar muni verðbólga hjaðna á árinu og líklega mælast um 2,1% yfir þetta ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×