Innlent

Kærir meðeigendur í Útvarpi Sögu

Arnþrúður Karlsdóttir hefur kært meðeigendur sína í Útvarpi Sögu fyrir brot á lögum um einkahlutafélög og sakar þá meðal annars um reyna að þvinga sig til að selja hlut sinn í fyrirtækinu. Einn meðeigendanna segir þetta fyndið og sakar Arnþrúði um samningsrof. Arnþrúður Karlsdóttir segist í viðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs hafa kært meðeigendur sína, þá Hallgrím Thorsteinsson og Sigurð G. Tómasson, til lögreglu fyrir að hafa reynt að kollsteypa fyrirtækinu, en Sigurður og Hallgrímur eiga enn þriðjung í Útvarpi Sögu. Arnþrúður segir að þeir hafi reynt að þvinga hana til að láta af hendi 67 próenta eignarhlut hennar í stöðinni fyrir ekki neitt í hendurnar á Frétt ehf. Það hafi hún ekki viljað og því hafi þeir gripið til þess ráðs að stöðva bankaviðskipti fyrir henni. Það hafi þeir gert kolólöglega. Arnþrúður segir að þeir hafi hótað því að setja upp aðra stöð og þeir hafi gengið út sama dag til þess að þvinga hana til þess að láta stöðina af hendi til Fréttar eða Norðurljósa. Þessar þvingunaraðgerðir séu brot á lögum um einkahlutafélög. Í greininni í Mannlífi segir að Arnþrúður hafi fengið lán hjá Baugi sem áður hafi gert tilboð í stöðina líkt og Jónína Benediktsdóttir í félagi við Jón Gerald Sullenbergar. Meðeigendur hennar telja að hún hafi reynt að sölsa undir sig stöðina með brellum og Hallgrímur Thorsteinsson vísar ásökunum Arnþrúðar á bug. Hann segir þær fyndnar og hann hafi ekki heyrt af neinni kæru þannig að hann efist um að hún sé fyrir hendi. Hann segir miklu nær að þeir kærðu hana fyrir samningsrof.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×