Innlent

Mótmælir ásökunum um skattsvik

Impregilo hefur sent frá sér tilkynningu vegna ásakana um að fyrirtækið hafi ekki greitt skatta hér á landi. Þar segir að fullyrðingar um skattsvik séu ósannar, ómaklegar og ósmekklegar og að fyrirtækið hafi greitt rúmlega 855 milljónir í skatta frá júlíbyrjun 2003 fram í nóvember 2004. Í fréttatikynningunni segir: „Ásakanir um skattsvik á hendur fyrirtækinu ótrúlega ósanngjarnar. Félagið greiðir um 50 milljónir í skatta mánaðarlega. Portúgalskar starfsmannaleigur greiða um 20 milljónir mánaðarlega. Frá júlíbyrjun 2003 fram í nóvember 2004 greiddi Impregilo íslenskum skattayfirvöldum 855.718.144 krónur í staðgreiðsluskatta og tryggingagjald vegna starfsmanna við Kárahnjúka. Ásakanir um að fyrirtækið svíki undan sköttum eru ósannar, ómaklegar og ósmekklegar. Portúgölsku starfsmannaleigurnar Select og Nett höfðu í nóvember 2004 greitt íslenskum skattayfirvöldum 60.028.612 (Select) og 70.076.859 (Nett) vegna staðgreiðsluskatta og tryggingagjalds sinna starfsmanna. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum deilir Impregilo við skattayfirvöld um ákveðin atriði er varða skattlagningu portúgalskra starfsmanna Select og Nett. Impregilo lítur á starfsmennina sem starfsmenn starfsmannaleiganna, en ekki sína starfsmenn. Fyrirtækin líta því svo á að Select og Nett eigi að sjá um skattgreiðslur vegna portúgalskra verkamanna hér á landi, ekki Impregilo. Máli sínu til stuðnings hefur Impregilo bent á að starfsmannaleigurnar greiða þessum mönnum laun, samkvæmt portúgölskum ráðningarsamningum þeirra. Með samkomulagi sem náðist við verkalýðshreyfinguna í október 2003 er tryggt að þessum mönnum séu a.m.k. greidd laun sem nema íslenskum kjarasamningum. Ríkisskattstjóri heldur því hins vegar fram að starfsmenn starfsmannaleiganna séu starfsmenn Impregilo. Select og Nett telja að portúgalskir starfsmenn sem starfa hér skemur en í 183 daga á ári séu ekki skattskyldir á Íslandi, heldur beri þeim að greiða skatta í Portúgal eins og fram kemur í tvísköttunarsamningi þjóðanna. Tvísköttunarsamningur á milli Íslands og Portúgal var staðfestur árið 2002 og öðlaðist gildi 1. janúar 2003. Ríkisskattstjóri setti fram í byrjun árs 2005 þá kröfu, fyrir Yfirskattanefnd, að tvísköttunarsamningurinn væri ekki talinn hafa verið í gildi árið 2003, þar sem dregist hafði að auglýsa hann á Íslandi. Þessi málsástæða kom ekki fram árið 2004, enda er kenningin ný og í andstöðu við fyrri framkvæmd er varðar gildistöku annarra tvísköttunarsamninga sem Ísland hefur gert, samkvæmt upplýsingum skattasérfræðinga félaganna. Vegna þessarra mála hefur Impregilo óskað eftir að Yfirskattanefnd úrkurði í málinu. Ekki er ólíklegt að úrskurður fáist síðar í þessum mánuði.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×