Sport

Þórarinn til Aberdeen

Þórarinn Kristjánsson skrifaði í gær undir sex mánaða samning við skoska úrvalsdeildarfélagið Aberdeen. Samningurinn felur í sér möguleika á tveggja ára framlengingu. Þórarinn hefur verið á heimshornaflakki í anda "Amazing Race" frá því Landsbankadeildinni lauk og ferðalögin báru loks árangur í gær er hann samdi við skoska liðið. "Það er þvílíkur léttir að þessu máli sé lokið," sagði Þórarinn í samtali við Fréttablaðið frá Skotlandi í gær. Hann var með lausan samning hjá Keflavík og fer því til Aberdeen án greiðslu. Þórarinn segir að hlutirnir hafi gengið hratt fyrir sig. "Ég fór á mínu þriðju æfingu með félaginu í dag og svo kláruðum við samninginn. Næst á dagskrá er að skjótast heim og pakka ofan í tösku því ég verð alkominn til Skotlands eftir helgina." Aberdeen er eitt af stóru liðunum í Skotlandi og situr í fjórða sæti deildarinnar eins og staðan er í dag. Þeir eru einu stigi á eftir Hibernian sem situr í þriðja sæti en ansi langt er í efstu liðin - Rangers og Celtic. "Mér líst rosalega vel á allt hjá félaginu. Aðstæður eru allar hinar bestu og þjálfarinn góður sem og mannskapurinn. Hér hugsa menn líka stórt og stefnan er sett á að komast í Evrópukeppni á næsta ári," sagði Þórarinn en hann fer væntanlega beint í byrjunarlið félagsins í næsta heimaleik sem er 16. janúar. Það er enginn smáleikur því þá heimsækja Aberdeen sjálfir Skotlandsmeistararnir í Celtic. "Þjálfarinn sagði að ég myndi spila þann leik og það verður alveg frábært. Ekki amalegt að byrja gegn meisturunum sem eru með mjög sterkt lið. Hann ætlar að nota mig sem framherja og það eru tveir framherjar liðsins meiddir eins og stendur en annar þeirra er að skríða saman og verður klár fljótlega," sagði Þórarinn en helsta stjarna liðsins er Noel Whelan, fyrrum leikmaður Coventry og Middlesbrough. Whelan hefur verið mikið meiddur í vetur og lítið leikið með liðinu. Þórarinn hefur ekki ákveðið hvað hann gerir næsta sumar fari svo að hann fái ekki áframhaldandi samning hjá Aberdeen. "Ég tek á því bara þegar þar að kemur. Vissulega kemur til greina að spila með Keflavík en það er ekkert ákveðið. Ég stefni fyrst og fremst að því núna að festa mig í sessi hjá Aberdeen og fá nýjan samning hjá félaginu," sagði Þórarinn Kristjánsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×