Sport

Hugurinn stefnir heim

Knattspyrnumaðurinn Auðun Helgason telur meiri líkur en minni á því að hann spili með FH á komandi tímabili. Hann er líklega á heimleið eftir sjö ára dvöl sem atvinnumaður í Noregi, Belgíu og nú síðast Svíþjóð. Samningur Auðuns við sænska liðið Landskrona rann út fyrir skömmu og sagði Auðun í samtali við Fréttablaðið í gær að eins og staðan væri í dag þá stefndi hugurinn heim. "Forráðamenn Landskrona hafa boðið mér tveggja ára samning og ef ég skrifa undir hann þá verð ég einnig fyrirliði liðsins. Ég er mjög hrifinn af þjálfara liðsins og þetta er auðvitað spennandi en ég get heldur ekki neitað því að það kitlar mikið að spila með FH á nýjan leik. Auðun sagði að nokkur félög hefðu sett sig í samband við hann en hann hefði ekki viljað ræða við þau. "Það kemur bara til greina að spila með einu liði á Íslandi og það er FH. Það eru spennandi tímar framundan hjá félaginu og miðað við það sem ég hef heyrt frá forráðamönnum liðsins þá er gífurlegur kraftur og metnaður í félaginu," sagði Auðun. Hann gerir ráð fyrir því að ákveða hvar hann spilar á komandi tímabili á næstu dögum en sagði það ekkert launugarmál að mjög líklegt væri að hann gengi í raðir síns gamla félags, FH. "Ég hef fengið tilboð frá norska liðinu Fredrikstad, danska liðinu OB og síðan Landskrona. Mér gekk vel síðari hlutann á tímabilinu í Svíþjóð en það er sennilega kominn tími til að koma heim. Konan klár námið sitt nú í janúar og þetta er mjög fín tímapunktur fyrir alla fjölskylduna," sagði Auðun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×