Erlent

Þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna

Írak er orðið að þjálfunarbúðum fyrir hryðjuverkamenn sem geta beitt reynslu sinni þaðan til árása annars staðar. Þetta kom fram í máli Porter Goss, yfirmanns bandarísku leyniþjónustunnar (CIA) þegar hann svaraði bandarískum þingmönnum. "Þeir sem lifa átökin af munu yfirgefa Írak reynslunni ríkari og staðráðnir í að fremja hryðjuverk í borgum. Þeir eru samansafn manna sem má sækja í til að byggja upp fjölþjóðlegar hryðjuverkahreyfingar og tengslanet," sagði Goss. Goss sagði heiminum enn stafa hætta af hryðjuverkum. "Það kann að vera að aðeins sé tímaspursmál hvenær al-Kaída eða önnur samtök reyna árásir með efnavopnum, sýklavopnum eða kjarnorkuvopnum," sagði hann og varaði jafnframt við kjarnorkuvopnaáætlunum Írana og Norður-Kóreumanna. Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra sagði að líkur væru á frekari hryðjuverkaárásum en tiltók ekki hvar eða hvenær þær kynnu að eiga sér stað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×