Innlent

Sættust yfir tindabikkju

Ein athyglisverðasta frétt vikunnar er án efa að sættir náðust milli Kristins H. Gunnarssonar og hinna ellefu þingmanna Framsóknarflokksins. Þessi sögulegi atburður átti sér stað á veitingastaðnum Við tjörnina en sá stendur við Templarasund, á ská á móti Alþingishúsinu. Íris Emilsdóttir, starfsmaður veitingastaðarins, segist þess fullviss að andrúmsloft staðarins hafi haft sitt að segja um að sættir náðust. "Það er ekki spurning, húsið hafði tvímælalaust sín áhrif enda er svo kósý og notalegt hjá okkur." Í ofanálag eru gardínurnar, sem dregnar voru fyrir glugga salarins sem Framararnir sátu í, prýddar fiðrildum en sem kunnugt er eru fiðrildi tákn um bjartari tíð með blóm í haga. Það er svo greinilegt af orðum Írisar að þingmenn Framsóknarflokksins eru óskagestir hvers veitingamanns. "Þetta er óskaplega kurteist og indælt fólk," segir hún. Flestir fengu þeir sér heitreyktan svartfugl í forrétt og eldsteikta tindabikkju í aðalrétt. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fólk nær sáttum við tjörnina, fyrir því hefur Íris vissu. "Það er ekki spurning. Hér hafa til dæmis hjón náð sáttum enda svo mikil rómantík í húsinu." Hvort það hafi haft sín áhrif að nýlega var sett upp málverk eftir Ómar Stefánsson yfir útidyrum staðarins skal ósagt látið en hann er jú nafni hins ötula bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins í Kópavogi. Heil sýning á verkum Ómars hefst á veitingastaðnum Við tjörnina í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×