Erlent

180.000 íbúar Darfur hungurmorða

Allt að 180.000 manns eru talin hafa dáið úr hungri og sjúkdómum í Darfur-héraðinu í Súdan síðastliðna átján mánuði. Fram til þessa hafa Sameinuðu þjóðirnar talið að 70.000 manns hafi látist af þessum sökum en nú telur Jan Egeland, forsvarsmaður Neyðarhjálpar Sameinuðu þjóðanna að mun fleiri hafi dáið, eða um tíu þúsund manns í hverju einasta mánuði. Þetta kom fram á fréttamannafundi sem haldinn var í fyrrakvöld. Átök hafa staðið yfir í Darfur í hartnær tvö ár. Hersveitir hliðhollar súdönskum stjórnvöldum eru taldar hafa misþyrmt og drepið tugþúsundir þorpsbúa í Darfur og hrakið allt að tvær milljónir manna frá heimilum sínum. Flestir þeirra dvelja í flóttamannabúðum í stærstu bæjum héraðsins en 200.000 manns hafa leitað skjóls í nágrannaríkinu Tsjad. Óeining hefur verið innan öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um hvers konar aðgerða beri að grípa til í Darfur. Niðurstaða nýlegrar skýrslu stofnunarinnar er að ekki hafi verið þjóðarmorð í Darfur en glæpir gegn mannkyni hefðu að líkindum veri drýgðir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×