Innlent

Hafísinn enn til trafala

Mynd/Vísir
Enn veldur hafísinn usla á Norðurlandi. Olíuskip þurfti að fresta för frá Akureyri vegna slæms skyggnis og íslaga á siglingaleiðinni austur fyrir land. Olíuskipið sem um ræðir heitir Cield D Bafin og er breskt. Það kom til Akureyrar á laugardag með olíufarm en skip af þessu tagi koma norður og losa olíu á Krossanesi fimm til sex sinnum á ári. Cield Bafin er 170 metra langt, 16.300 brúttótonn og getur flutt allt að 200 milljónir lítra af olíu í einu. Yfirmennirnir eru rússneskir en 21 maður er í áhöfn. Ívar Reimarsson, hafnarvörður á Akureyri, segir skipstjórann hafa reynt að fara á sunnudaginn en skipið hafi orðið að snúa við í fjarðarkjaftinum. Það lagði svo af stað á miðnætti í gær í von um að ná siglingaleiðinni austur fyrir land í björtu. Það er væntanlegt til Norðfjarðar síðdegis í dag ef allt gengi að óskum. Strengt var fyrir höfnina í Grímsey í gærkvöldi en mikill ís er í kringum eyna. Höfnin er ekki lokuð en að sögn heimamanna fara menn hreinlega ekki á sjó þegar svona er ástatt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×