Innlent

Spurningin var misskilin

Ein forsenda fyrir staðsetningu álvers á Norðurlandi er samstaða og áhugi heimamanna. Samkvæmt könnun sem iðnaðar- og viðskiptaráðneytið lét IMG Gallup framkvæma í febrúar vill liðlega helmingur Eyfirðinga að álver rísi í Eyjafirði. Samkvæmt könnun sem sama fyrirtæki framkvæmdi um fimm mánuðum áður fyrir Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar voru 62,6 prósent Akureyringa og íbúa í nágrenni Akureyrar fylgjandi stóriðju í Eyjafirði. Ef eingöngu er skoðaður vilji Akureyringa í fyrri könuninni vildu 66,1 prósent þeirra fá stóriðju í Eyjafjörð. Magnús Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, segist ekki sjá neina aðra augljósa skýringu á misvísandi niðurstöðum þessara tveggja kannana en orðalag spurninganna. „Í könnun Atvinnuþróunarfélagsins var spurt um afstöðu fólks til stóriðju í Eyjafirði en í könnun iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins var spurt hvort fólk væri hlynnt eða andvígt því að álver yrði reist í nágrenni Akureyrar. Fólk gat því misskilið spurninguna í síðari könnuninni og talið að það væri að svara því til hvar í Eyjafirði álver ætti að rísa en ekki hvort það ætti að rísa. Veit ég sjálfur dæmi þess að fylgjendur álvers í Eyjafirði misskildu spurninguna á þennan hátt og því ljóst að orðalag könnunar iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins var óheppilegt. Úrslitin í þessu máli ráðast hins vegar ekki í skoðanakönnunum á milli hreppa heldur er það fjárfestirinn sem velur hagkvæmustu staðsetninguna," segir Magnús. Þóra Ásgeirsdóttir, forstöðumaður viðhorfsrannsókna hjá IMG Gallup, segir að verkkaupi ákveði um hvað sé spurt en Gallup ákveði endanlega orðalag spurninganna. „Varðandi þessar tvær kannanir þá er ekki verið að spyrja um nákvæmlega sama hlutinn, heldur annars vegar um uppbyggingu stóriðju í Eyjafirði og hins vegar um álver í nágrenni Akureyrar," segir Þóra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×