Innlent

Gæti bjargað Landsvirkjun

Úrskurður Héraðsdóms um að Álverið við Reyðarfjörð þurfi að fara í nýtt umhverfismat gæti bjargað Landsvirkjun frá hárri skaðabótakröfu vegna tafa við Kárahnjúkastíflu. Úrskurðurinn gæti meira að segja orðið til þess að eigandi Álversins þyrfti að greiða Landsvirkjun en ekki öfugt. Samningur milli Landsvirkjunar og Alcoa gerir ráð fyrir skaðabótaábyrgð verði ekki staðið við tímasetningar. Áætlað er að byrja að láta renna í Hálslón 1. september árið 2006 en framkvæmdin hefur þegar tafist um nokkura mánuði. Takist ekki að láta renna í lónið á tilsettum tíma gæti dregist um marga mánuði að hefja álframleiðslu á Reyðarfirði sem fyrirhugað er að hefja 1. apríl 2007. Þetta kallar á háar skaðabætur samkvæmt samningi Landsvirkjunar og Alcoa. Landsvirkjun hefur hins vegar talið að hægt væri að standa við tímasetningar og gert í því skyni viðbótarsamninga við Impregilo. Deilur um það vinnuafl sem Impregilo hyggst nota gætu hins vegar sett strik í reikninginn. Ef Landsvirkjun getur ekki útvegað Álverinu það rafmagn sem þarf fyrir tilsettan tíma þarf að bæta Álverinu þá framlegð sem þá fer forgörðum. En samningurinn virkar í báðar áttir. Staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms getur nýtt umhverfismatsferli seinkað því verulega að Álverið hefji starfsemi. Álverið þarf að greiða fyrir 85% prósent af því rafmagni sem fyrirhugað er að nota í því, hvort sem það verður notað eða ekki. Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, segir að fyrirvari sé þó hafður á í samningnum að ef menn láti vita af töfum í tíma, þá beri hinum aðilum að haga sinni framkvæmd þannig að tjónið verði sem minnst. Hann segir að bæði Alcoa og Landsvirkjun ætli hins vegar að kappkosta að standa við tímasetningar og það ætti að geta tekist. Alcoa gæti þá hins vegar hugsanlega höfðað skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu. Eigendur Álversins hafa ekki viljað segja til um hvort slíkt skaðabótamál verði höfðað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×