Innlent

Blóðbankinn hefur útrás

Blóðbankinn hefur hafið útrás, líkt og aðrir íslenskir bankar. Bankinn er byrjaður að skrá sjálfboðaliða í beinmergsgjafaskrá sem verður hluti af norsku beinmergsgjafaskránni. Alþjóðlegt samstarf skiptir sköpum, segir yfirlæknir Blóðbankans. Undirbúningur að stofnun íslensku stofnfrumugjafaskrárinnar, eða beinmergsgjafaskrár, hefur tekið fimm ár. Sjálfboðaliðum verður safnað í skrána hér á landi og upplýsingar sendar til norsku beinmergsgjafaskrárinnar, en hún er hluti af alþjóðlegu samstarfi þar sem meira en níu milljónir stofnfrumugjafa eru á skrá. Stefnt er að því að skrá 500 sjálfboðaliða á þessu ári og 2.500 á næstu fimm árum. Blóðbankinn hefur hingað til sinnt svokallaðri vefjaflokkun í tengslum við ígræðslu líffæra og stofnfrumna en sjúklingar sem þurfa á stofnfrumum að halda eru oftast með illkynja blóðsjúkdóma eða æxli. Virkir blóðgjafar geta orðið stofnfrumu- eða beinmergsgjafar á Íslandi en með stofnun beinmergsgjafaskrárinnar aukast einnig líkurnar á að sjúklingur hér á landi geti fengið stofnfrumur utan úr heimi. Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans, segir að það skipti Íslendinga máli að vera þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi og Blóðbankinn líti á þetta sem útrás hans á alþjóðlegan markað. Útrás einkenni íslenskt þjóðfélag í dag og Blóðbankinn sé þátttakandi í henni. Torstein Egeland hjá Ónæmisstofnun norska ríkisspítalans segir að hér á landi séu vefjaflokkar sem nauðsynlegt sé að hafa með í þessu alþjóðlega samstarfi því það séu sjúklingar annars staðar á Norðurlöndum eða í Bandaríkjunum sem þurfi á þeim að halda. Íslenskir sjúklingar njóti þess að fá stofnfrumur utan úr heimi og því sé rétt að vera með og bjóða sjúklingum um allan heim stofnfrumur héðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×