Lífið

Þrjóska og Pink Floyd í farteskinu

Göngugarpurinn Jón Eggert Guðmundsson eyðir sumarfríinu í ferðalag til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands. Hann lagði af stað í gær frá Vogum með þrjóskuna í farteskinu og óminn af Pink Floyd í eyrunum. Jón stefnir á að ganga strandveginn suður með landinu, um 1500 kílómetra, á sex vikum. Næsta sumar ætlar hann svo að klára hringinn með því að ganga frá Hafnafirði til Akureyrar með viðkomu á Vestfjörðum. Hann segist upphaflega hafa ætlað að fara fjörugöngu í kringum landið en hætt við þar sem það sé mjög erfitt. Jón segist hafa æft sig fyrir gönguna með því að ganga á Esjuna tvisvar til þrisvar í viku síðan í febrúar. Aðspurður hvers vegna hann velji að styrkja Krabbameinsfélagið segir hann nokkra ættingja sína hafa dáið úr krabbameini og þetta sé því líka í minningu þeirra. Jón verður ekki einn á ferð um landið því félagi hans, Sigfús Austfjörð, ætlar að vera honum innan handar, t.a.m. að gefa honum honum að borða og drekka á fimm kílómetra fresti. Hann nýtir sér líka nýjustu tæknina og bloggar á um fimm kílómetra fresti svo að auðveldlega má fylgjast með ferðum hans á Netinu. Jón Eggert ætlar að gista í Vogum í nótt og ganga austur fyrir Herdísarvík á morgun. Söfnunarsíminn til að heita á Jón Eggert er 907 5050.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.