Innlent

Krakkarnir vildu Smáralind

Kópavogsbúar geta komið skoðunum sínum á framfæri við bæjaryfirvöld á fundinum á laugardag. Unga fólkið er ekki síður hvatt til að láta skoðun sína í ljós.
Kópavogsbúar geta komið skoðunum sínum á framfæri við bæjaryfirvöld á fundinum á laugardag. Unga fólkið er ekki síður hvatt til að láta skoðun sína í ljós.

Íbúaþing verður haldið í Lindaskóla í Kópavogi á laugardaginn kemur en þá gefst íbúum tækifæri til að tjá sig um það sem þeim liggur á hjarta varðandi málefni bæjarins.

"Þetta fer þannig fram að fundargestir skrifa á gulan miða það sem þeir vilja koma á framfæri," segir Margrét Björnsdóttir, formaður umhverfisráðs. "Síðan er unnið úr hverjum einasta miða og þessar upplýsingar notaðar í okkar vinnu."

Árið 2001 hélt Kópavogsbær íbúa­þing fyrst allra bæjar­félaga og tókst afar vel til að sögn Margrétar. "Eins og þá leggjum við nú mikið upp úr því að heyra skoðanir unga fólksins og hefur sérstakur vinnuhópur verið skipaður í þeim tilgangi. Síðast komu margar góðar hugmyndir frá unga fólkinu; þau vildu til dæmis fá Smáralindina og það varð úr en svo vildu þau líka ókeypis nammi en það er kannski ekki alltaf hægt að verða við öllu," segir Margrét kankvís.

Hún vonast til þess að um fimm hundruð manns mæti í Lindaskóla til að láta skoðun sína í ljós enda eru mörg mál og stór í undirbúningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×