Innlent

Samkynhneigð pör fái að ættleiða börn

Halldór Ásgrímsson
Halldór Ásgrímsson

Ríkisstjórnin hefur sam­þykkt frumvarp til laga sem eykur rétt samkynhneigðra til jafns við gagnkynhneigðra á mörg­um svið­um. Frumvarpið á að leggja fyrir Alþingi á næstu dögum.

"Í frumvarpinu felst að samkyn­hneigðir geti fengið óvígða sam­búð skráða í Þjóðskrá og það verð­ur til þess að þeir njóta sömu réttinda og aðrir bæði um almanna­trygg­ingar, skatta­lega meðferð, lífeyrisréttindi og skipt­ingu á dánarbúi og fleira. Sam­kyn­hneigðum verður heim­ilt að ættleiða börn og þar með verður sá réttur jafnað­ur. Í síðasta lagi má nefna að kona í staðfestri samvist með annarri konu hefur rétt til að gangast undir tæknifrjóvgun með gjafasæði líkt og við á um gagn­kyn­hneigð pör," segir Halldór Ásgríms­son forsætis­ráð­herra og telur mikilvæg skref stigin í jafn­réttis­átt.

"Um þetta er mikil og góð samstaða í ríkisstjórninni." Halldór segir að málefni kirkj­unnar standi ein­ung­is út af. "Kannski má segja að það sé eina atriðið sem ekki er alveg ljóst og við höfum ekki haft bein afskipti af, en það er spurningin um vígslu í kirkjulegri athöfn," segir hann og bætir við að í nefnd­ar­áliti komi fram hvatn­ing til kirkj­unnar að taka þar afstöðu.

"Þetta eru frábærar fréttir," segir Sólveig Eiríksdóttir, kenn­ari á Hellissandi, sem er þar í sambúð með Snædísi Hjartar­dóttur. "Við urðum mjög hissa þegar við komumst að því að við máttum ekki skrá okkur í sambúð. Þarna sýnist mér við jafnvel komin framar en Danir," segir hún.

Verði frumvarpið að lögum segir Sólveig það gjörbylta allri réttarstöðu samkynhneigðra, sem loks nálgist að standa jafnfætis gagnkynhneigðum hvað réttindi varðar.

"Svo munar um það fyrir lesbísk pör að sleppa við ferðalög til Danmerkur eftir tækni­frjóvgun, enda er það bæði dýrt og tímafrekt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×