Innlent

Auglýsingaiðnaðurinn sameinast um sjóð til stuðnings góðum málefnum

Auglýsingaiðnaðurinn hefur sameinast um sjóð sem hefur það markmið að styðja góð málefni í samfélaginu á markvissan hátt með afli auglýsinga. Sjóðurinn ber nafnið AUGA – auglýsingar, afl til góðra verka. Nú hefur verið auglýst eftir umsóknum í sjóðinn með auglýsingum í dagblöðum.

Í fréttatilkynningu frá stjórnendum sjóðsins segir að samtök sem vinna að ýmsum samfélagslegum þjóðþrifamálum sótt um stuðning í formi auglýsingaherferðar, til að kynna sitt starf í samfélaginu. Herferð sem er skipulögð, hugsuð, hönnuð og birt í fjölmiðlum þeim að kostnaðarlausu.

Þar segir enn fremur:

Samband íslenskra auglýsingastofa, auglýsendur og fjölmiðlar hafa sameinast um þennan stuðningssjóð. Auglýsingafagið býr yfir einstakri þekkingu á boðmiðlun. Þekkingu sem margoft hefur verið beitt í þágu brýnna málefna, eins og dæmin sanna. Stefnt er að því að AUGA standi að a.m.k. einni myndarlegri auglýsingaherferð árlega. Herferð AUGA er ætlað að verða viðbót við það góða starf sem þegar er unnið á þessum vettvangi. Stofur innan vébanda SÍA leggja til vinnu, auglýsendur fjármagn og fjölmiðlar leggja til birtingapláss.

Stofnendur AUGA eru Samband íslenskra auglýsingastofa (SÍA), Samtök auglýsenda (SAU), ÍMARK, 365 prent- og myndmiðlar, Morgunblaðið, RÚV og Fróði og skipa níu fulltrúar stjórn AUGA, þrír frá SÍA, tveir frá SAU, þrír fulltrúar frá fjölmiðlum og einn fulltrúi frá ÍMARK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×