Innlent

Eldur kom upp í metangasbíl í annað sinn á skömmum tíma

Ökumaður bílsins var á leið vestur Miklubraut þegar hann sá eldglæringar undan bílnum. Slökkviliðið var í nágrenninu og tók því skamma stund að koma á staðinn og gekk slökkvistarf greiðlega. Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem eldur kemur upp í metangas bíl en í september þá kom eldur upp í slíkum bíl og voru báðir bílarnir framleiddir af Citroen. Að sögn Egils Jóhannssonar framkvæmdarstjóra Brimborgar þá eru tuttugu og tveir eða tuttugu og þrír slíkir bílar í umferð á Íslandi og hafa verið í tvö og hálft ár. Eru þetta einu tilvikin sem upp hafa komið síðan þeir komu fyrst á götuna og ekki er að hans sögn hægt að segja til að svo stöddu hvort eldurinn komi upp vegna gasins eða vegna einhvers annars eins og til dæmis rafmagns. Þegar fyrra tilfellið kom upp fór af stað ákveðið ferli og hingað komu menn frá verksmiðjunni til að rannsaka flakið. Sama verður uppi á teningnum nú.

Bílabrunar eru um það bil tvöhundruð á hverju ári og oftast eru eldsupptök í rafmagnsbúnaði bílanna. Hlutfallslega er því algengara að eldur komi upp í metangasbíl en venjulegum bensínbílum. Gestur Ó. Pétursson aðstoðarvarðstjóri hjá Slökkviliðinu í Reykjavík telur að ekki sé um samhengi á milli þessara tveggja tilfella að ræða en menn verði að vera vakandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×