Innlent

Allra kvenna elst

Hún situr þögul í fallegri stofu, með silfurgráar fléttur langt niður eftir bakinu. Fléttur sem hún fléttar sjálf á hverjum degi, áður en hún hefur fótaferð og silast um á göngugrindinni, eins og hún orðar það sjálf og kímir. "Mér líður ágætlega og spái lítið í að vera orðin elst Íslendinga. Það er ágætt að vera aldraður þegar maður er sæmilega frískur," segir Guðfinna Einarsdóttir, sem í dag er 108 ára og 46 daga og slær þar með Íslandsmet Halldóru heitinnar Bjarnadóttur sem varð 108 ára og 45 daga gömul. Guðfinna fæddist 2. febrúar árið 1897 í Ásgarði í Dalasýslu og bjó í Dalasýslu allt þar til hún flutti til Reykjavíkur árið 1970. "Ég hef alltaf kunnað vel við mig í borginni og hefur liðið vel hjá Jóhönnu dóttur minni. Ég var lánsöm að verða barns auðið, fjölskylda skiptir máli í lífinu. Mig hefur ekki langað á elliheimili, en held að Íslendingar hljóti að hugsa vel um gamla fólkið sitt." Hún segir dagana líða bæði hratt og hægt. "Ég nenni ekkert orðið að gera nema að hlusta á útvarpið. Gæti prjónað en nenni því ekki enda blind á vinstra auga. Ég sef vel, en fæ stundum pirring í fæturna og bið þá Jóhönnu að bera á fæturna smyrsl til að róa þá." Guðfinna hafði talsvert af skáldum að segja í heimasveitinni í gamla daga, en þeir Steinn Steinarr, Stefán frá Hvítárdal og Jóhannes úr Kötlum voru allir listamenn úr sömu sýslu. "Jú, ég þekkti til þeirra allra, en sjálf var ég hrifnust af tónlist. Pabbi söng mikið og bróðir minn spilaði á orgel. Svo hef ég yndi af gestakomum," segir þessi elsta heiðurskona Íslands, sem ætlar ekki að gera sér dagamun í tilefni dagsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×