Innlent

Bylting á Egilsstöðum

Hilmar Gunnlaugsson, hdl. og löggiltur fasteignasali á Fasteigna- og skipasölunni, segir að bylting hafi orðið í fasteignasölu á Austfjörðum. Fleiri fasteignasölur séu nú starfandi á svæðinu og samkeppni hafi aukist. Fasteignir hafi snarhækkað í verði og veltan í sölunni hafi fjórfaldast. Hann telur að verðið eigi enn eftir að hækka, markaðurinn sé ekki kominn á toppinn. "Markaðurinn er orðinn eðlilegur. Fasteignaverð hér er ágætt. Menn geta nú byggt til að selja án þess að tapa á því. Verðmyndunin er orðin eðlileg," segir Hilmar. Á Austurlandi er 140-150 þúsund krónur á fermetra algengt verð í nýju húsnæði. Verðið fer allt upp í 200 þúsund á fermetra en það er óvenjulegt. Fermetraverð á nýbyggingum var um 135 þúsund fyrir rúmu ári. "Það er svo stutt síðan markaðurinn var lélegur að það er kannski ákveðin vantrú ríkjandi. Það tekur fólk tíma að venjast þessum breytingum," segir hann og telur ekki um neina bólu að ræða. Framkvæmdirnar á Kárahnjúkum og í Reyðarfirði styðji við svæðið til frambúðar. Verðhækkunin telur Hilmar að gildi almennt á Austfjörðum þó að það sé misjafnt eftir bæjarfélögum hversu mikil hún sé. Minnst sé hún á Seyðisfirði enn sem komið er. Þá segir hann að göngin frá Reyðarfirði til Fáskrúðsfjarðar séu farin að hafa áhrif á svæðið. Þau hafi orðið til þess að hækka fasteignaverð á Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði því að með tilkomu þeirra verði styttra frá Fáskrúðsfirði að álverinu en til Egilsstaða auk þess sem Breiðdalsvík komist inn á áhrifasvæðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×