Innlent

Leyfi fyrir 24 Kínverja

Impregilo fær á morgun atvinnuleyfi fyrir 24 Kínverja samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Alls verður gefið út 61 nýtt atvinnuleyfi fyrir íslensk og erlend fyrirtæki sem starfa á íslenskum vinnumarkaði. Þjóðerni þeirra einstaklinga sem hér um ræðir eru sem hér segir: Frá Kína 24 einstaklingar, frá Póllandi 22 einstaklingar, fjórir frá Litháen, þrír einstaklingar frá Lettlandi, þrír einstaklingar frá Serbíu, einn frá Eistlandi, einn frá Pakistan, einn frá Víetnam, einn frá Albaníu og einn einstaklingur frá Ástralíu. Fram hefur komið að fjöldi umsókna um atvinnuleyfi fyrir erlent vinnuafl hafa borist Vinnumálastofnun frá Impregilo. Í samstarfi við fyrirtækið hefur það verklag verið ákveðið að starfsmenn stofnunarinnar munu eiga reglubundna samráðsfundi með starfsmannahaldi fyrirtækisins til að yfirfara umsóknir frá íslenskum atvinnuleitendum, hvort heldur þær hafi borist beint til fyrirtækisins eða gegnum vinnumiðlunarvef Vinnumálastofnunar og svæðisvinnumiðlana. Sama mun eiga við um umsóknir sem borist hafa frá atvinnuleitendum á evrópska efnahagssvæðinu. Auglýsingar frá fyrirtækinu verða opnar á vef stofnunarinnar og EURES- evrópska vinnumiðlunarvefnum næstu vikur. Í kjölfar samráðsfundanna og í samræmi við niðurstöður þeirra hverju sinni og með hliðsjón af þörfum fyrirtækisins mun Vinnumálastofnun ákvarða um útgáfu atvinnuleyfa til fyrirtækisins. Fyrsti samráðsfundurinn verður haldinn á Egilsstöðum miðvikudaginn 2. febrúar nk.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×