Lífið

Á að vera mættur til Clint

"Ég verð að fara að komast af stað, Dirty Harry er farinn að reka á eftir mér," sagði ræðarinn Kjartan Jakob Hauksson sem var staddur á Stokkseyri í gær. Hann gat þó ekki lagt af stað vegna vonsku veðurs en vonaðist til þess að geta ýtt úr vör í dag. Það er líka eins gott því Kjartan á að vera mættur í vinnu þar sem hann hefur verið ráðinn öryggiskafari og umsjónarmaður með prömmum við tökur á mynd Clints Eastwood sem nú fara fram í Sandvík. Eitt ævintýrið virðist reka annað hjá Kjartani því þegar tökum líkur hér á landi mun hann í samstarfi við rússneska kafara reyna að staðsetja skipsflag rússnesks birgðaskips sem skotið var í kaf í síðari heimsstyrjöldinni skammt fyrir utan Aðalvík við Ísafjarðardjúp. Kvikmyndatökur koma þar einnig við sögu því áætlað er að gera heimildarmynd um þá leit. Hann bindur vonir við það að komast í Reykjavíkurhöfn seinnipart sunnudags en hann segir erfitt um það að spá þar sem höfuðskepnurnar ráði mestu um allar tilhaganir.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.