Innlent

Deilt um takmörkun eignarhalds

Fjölmiðlanefndin sem menntamálaráðherra skipaði síðasta haust hefur ekki enn komist að niðurstöðu um hversu strangar takmarkanir eigi að setja við eignarhald markaðsráðandi fyrirtækja á fjölmiðlum. Almenn sátt er hins vegar um að einhverjar takmarkanir verði að vera. Enn hefur ekki verið tekist á um niðurstöðurnar, en nefndarmenn hafa kynnt hugmyndir sínar í nefndinni. Þær eru allt frá því að vera hinar sömu og gert var ráð fyrir í fjölmiðlafrumvarpinu sem samþykkt var á Alþingi síðasta sumar, þar sem sett var bann við því að markaðsráðandi fyrirtæki ætti meira en 15 prósenta hlut í ljósvakamiðli, yfir í að hafa engar takmarkanir. Þá hefur verið rætt um að setja mörkin við 30 prósenta eignarhlut markaðsráðandi fyrirtækja. Horfið hefur verið frá hugmyndum um að setja bann við því að sami aðili eigi ljósvakamiðil og prentmiðil, líkt og stefnt var að í sumar. Meðal þess sem fjölmiðlanefndin mun leggja til í skýrslunni er að þeim fjölmiðlafyrirtækjum sem þegar búa yfir dreifikerfi verði skylt að veita nýjum fyrirtækjum á fjölmiðlamarkaði aðgang. Það muni tryggja nauðsynlega nýliðun á markaðinum. Þá hefur verið rætt um að setja eigi á fót stofnun sem hafa á eftirlit með því að skilyrðum sem sett eru í útvarpsleyfum sé fylgt eftir. Ekki hefur verið ákveðið hvort nýta megi stofnun sem þegar sé starfandi, líkt og Póst- og fjarskiptastofnun eða útvarpsréttarnefnd. Þá verður lagt mikið upp úr því að lög verði sett þar sem gagnsæi eignarhalds verði tryggt. Auk þess mun nefndin leggja það til að tryggja megi sjálfstæði ritstjórnar gagnvart eigendum. Nefndin telur að með því að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins megi tryggja það að ákveðin samkeppni sé á fjölmiðlamarkaði sem leiði til nauðsynlegrar fjölbreytni. Því telur nefndin að Ríkisútvarpið verði að hafa skýra og skarpa hlutdeild á markaði. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins leggja nefndarmenn mikið upp úr því að sátt náist um niðurstöðurnar. Horft verði til framtíðar í stað þess að miða niðurstöðurnar við það fjölmiðlaumhverfi sem nú er til staðar. Formaður nefndarinnar er Karl Axelsson. Með honum sitja Kristinn Hallgrímsson lögfræðingur, Hanna Birna Kristjánsdóttir fyrir Sjálfstæðisflokkinn, Pétur Gunnarsson fyrir Framsóknarflokkinn, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrir Samfylkinguna, Kolbrún Halldórsdóttir fyrir Vinstri græna og Magnús Þór Hafsteinsson fyrir Frjálslynda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×