Innlent

Mikil aukning í útgáfu vegabréfa

Bandaríkjaferðum Íslendinga fjölgaði um helming í vetur miðað við árið á undan. Útgáfa nýrra vegabréfa hefur aukist í takt við það, enda þarf rafrænt vegabréf til að ferðast til Bandaríkjanna. Það er þó mögulegt að sleppa með það gamla enn um sinn - en bara einu sinni. Það er setið við frá morgni til kvölds hjá vegabréfadeild Útlendingastofnunar, enda fjölgar umsóknum um ný vegabréf með hverjum degi. Elín Inga Arnþórsdóttir, yfirmaður vegabréfadeildar, segir að um 30% aukning hafi orðið fyrstu tvo mánuði ársins og núna stefni í 50% aukningu. Elín segir að af samtölum við umsækjendur að dæma megi ætla að þessi fjölgun sé í beinu samhengi við lágt gengi dollarans - margir vilji nýta sér það. Bandaríkjamenn hafa krafist þess síðan í október að allir sem þangað ferðast hafi svokallað rafrænt vegabréf. Það eru ekki allir jafn ánægðir með það; finnst vesen að fá sér ný og á jafnvel nokkur ár eftir af því eldra. Margir þurfa því að óska eftir flýtiafgreiðslu á vegabréfi sem kostar 10.100 krónur. Vegabréfaútgáfan malar því væntanlega gull fyrir ríkissjóð um þessar mundir en 40 þúsund ný vegabréf voru gefin út í fyrra og reiknað er með að þau verði mun fleiri í ár. Samtals er búið að gefa út ríflega 170 þúsund rafræn vegabréf og miðað við að Íslendingar eru ekki nema tæp 300 hundruð þúsund hlýtur að fara að líða að því að toppnum sé náð. En fyrir þá sem neita í lengstu lög að fá sér nýtt vegabréf, en vilja samt fara til Bandaríkjanna, þá er örlítil smuga. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi FL Group, segir að þeir sem ferðist með gamalt vegabréf til Bandaríkjanna fái undanþágu til 25. júní. En bara einu sinni - þar lesa landamæraverðir yfir fólki og því er sagt að það þýði ekki að reyna að koma þangað aftur á gömlu vegabréfi. Guðjón segir flugfélagið reyna að fylgjast með því vegna þess að ef það gerist þá verði fólki meinað að koma inn í landið og flugfélagið sektað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×