Innlent

Ólga í skólamálum

Óánægðir íbúar Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafa sent félagsmálaráðuneytinu stjórnsýslukæru vegna ákvörðunar hreppsnefndarinnar að leggja niður grunnskólann í Brautarholti og flytja skólahald í Gnúpverjaskóla í Árnesi. 80 til 100 manns mættu á fund á miðvikudagskvöld, þar sem samþykkt var að skora á hreppsnefndina að láta gera kostnaðargreiningu á flutningi skólastarfs, áhrif þess á rekstur leikskóla sem starfræktur er við þann skóla sem loka á og lokið verði við úttekt Rannsókarstofnunar Kennaraháskóla Íslands á skólastarfi í hreppnum. Óánægja íbúa snýr að því að skýrsla Rannsóknarstofnunarinnar var ekki komin út þegar ákvörðunin var tekin og að atkvæðagreiðsla hafi ekki verið auglýst í fundarboðun hreppsnefndar. Þá efast kærendur um hæfni þriggja hreppsnefndarmanna í málinu, þar sem þeir eða makar þeirra starfi við Þjórsárskóla. Að lokum er það gagnrýnt að málið hafi verið afgreitt á einum fundi. Aðalsteinn Guðmundsson, oddviti hreppsnefndar, segir meginástæðu þess að sameina eigi skólastarf fækkun nemenda. Þá hafi ákvörðun hans um hvorum skólanum skyldi lokað verið byggð á faglegu sjónarmiði og vilja til að brjóta upp hrepparíg. Það sé rýmra húsnæði í Gnúpverjaskóla og því sé það heppilegra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×