Innlent

Kosið milli Ágústar og Kristínar

Ágúst Einarsson, prófessor í rekstrarhagfræði, og Kristín Ingólfsdóttir, prófessor í lyfjafræði, urðu efst í rektorskjöri innan Háskóla Íslands á fimmtudag. Því verður kosið á milli þeirra tveggja næsta fimmtudag, en hinir frambjóðendurnir tveir, Einar Stefánsson, prófessor í augnlækningum, og Jón Torfi Jónasson, prófessor í uppeldis- og menntunarfræði, eru fallnir úr leik. Í hádeginu á þriðjudaginn 15. mars verður haldinn kappræðufundur milli Ágústs og Kristínar í Háskólabíó. Kristín hlaut 28,7 prósent gildra atkvæða, Ágúst hlaut 27,6 prósent, Jón Torfi hlaut 24,7 prósent og Einar hlaut 19,1 prósent gildra atkvæða. Allir frambjóðendur eru sammála um að kosningabaráttan hafi verið afar drengileg. Ágúst segist mjög ánægður með þessa niðurstöðu og er bjartsýnn á framhaldið. "Munurinn er tiltölulega lítill, ekkert sem skiptir máli, en nú byrjar þetta upp á nýtt." Hann segir jafnframt að nái hann kjöri sem rektor, hafi hann ákveðið að gegna starfinu einungis í fimm ár. "Þetta er eitthvað sem ég hef gert upp við mig. Þetta er verkefni og ég myndi helga því starfi mínu í fimm ár, en svo myndi ég snúa mér aftur að rannsóknum og kennslu." Kristín segir að niðurstöðuna hafa komið sér á óvart. Þarna hafi hún verið í hópi sterkra og verðugra meðframbjóðenda. "Þetta var auðvitað afskaplega ánægjulegt." Spurð að því hvort það kitli ekki að vera komin skrefinu nær því að verða fyrsti kvenrektor Háskólans, segir hún þetta vissulega mikilvægan áfanga til að ná lokamarkmiðinu. "Ég mun gera það sem ég get til að koma stefnumálum mínum og áherslum á framfæri þessa viku." Einar og Jón Torfi segjast báðir sáttir sig við niðurstöðuna, en vilja ekki gefa upp hvorn frambjóðandann þeir styðji nú. "Nú ætla ég að draga mig úr baráttunni og fólk gerir það bara upp við sig sjálft hvern það styður," segir Jón Torfi. Kosning til rektors   Öll gild atkvæði: Ágúst Einarsson        27,6% Einar Stefánsson       19,1% Jón Torfi Jónasson    24,7% Kristín Ingólfsdóttir    28,7%   Háskólamenntaðir starfsmenn:  Ágúst Einarsson        26,0% Einar Stefánsson       21,1% Jón Torfi Jónasson    21,8% Kristín Ingólfsdóttir    31,2%   Aðrir starfsmenn: Ágúst Einarsson        31,5% Einar Stefánsson       3,4% Jón Torfi Jónasson    38,1% Kristín Ingólfsdóttir    27,0%   Stúdentar: Ágúst Einarsson        28,4% Einar Stefánsson       18,3% Jón Torfi Jónasson    26,1% Kristín Ingólfsdóttir    27,2% Vægi atkvæða skiptist þannig ; háskólamenntaðir starfsmenn 60%, aðrir starfsmenn 10% og stúdentar 30% Heimild: hi.is, fréttavefur Háskóla Íslands
Möguleg tímamót Ef Kristín Ingólfsdóttir verður kjörinn rektor Háskóla Íslands, verður hún fyrsta konan til að sinna því starfi.Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×