Erlent

Minna tjón en óttast var

Fellibylurinn Rita gekk á land á mörkum Texas og Louisiana í gær. Úrkoman og sjógangurinn sem bylurinn bar með sér færði nokkra strandbæi á kaf og olli því að vatn flæddi yfir varnargarða í New Orleans. Rafmagnslaust varð á heimilum meira en einnar milljónar manna. Tjónið á olíuhreinsistöðvum á Texasströnd, sem bylurinn gekk yfir, virtist hins vegar ætla að verða minna en óttast var. Milljónaborgin Houston virtist líka ætla að sleppa tiltölulega vel. Sjálf miðja fellibyljarins gekk á land klukkan hálfátta í gærmorgun að íslenskum tíma, en heldur hafði þá dregið úr vindstyrknum svo að Rita taldist þá vera komin niður í þriðja stigs fellibyl. Eyðileggingarmáttur slíks byls er þó umtalsverður, enda nær vindhraði í honum allt að 193 km/klst. Strax eftir að Rita gekk á land dró frekar úr veðurofsanum; vindhraðinn var kominn niður í um 120 km/klst um miðjan daginn, er bylurinn mjakaðist norður á bóginn, innar í land. Fellibylurinn Katrín taldist fjórða stigs er hann gekk á land í Louisiana og Mississippi í byrjun mánaðarins. Síðdegis taldist Rita ekki lengur fellibylur heldur aðeins kröftug hitabeltislægð með rúmlega 100 km vindhraða. Að sögn veðurfræðinga mátti búast við því að enn drægi úr veðurhamnum næsta sólarhringinn. Rigningin sem Rita bar með sér inn á land var þó svo mikil að víða var hætta á tjóni af völdum flóða. 250-300 mm úrkoma hafði dembst yfir sýslurnar Jasper og Tyler í austurhluta Texas á innan við sólarhring. Engar fréttir höfðu í gær borist af manntjóni af völdum veðurhamsins, en björgunarsveitir urðu að bíða uns mesti veðurofsinn væri genginn niður áður en þær gátu gengið úr skugga um að fólk á hættusvæðunum væri heilt á húfi. Um þrjár milljónir manna þurftu að flýja heimili sín vegna fellibylshættunnar á 800 km langri sneið af strandhéruðum Texas og Louisiana. Rick Perry, ríkisstjóri Texas, hvatti þá sem höfðu flúið Houston og aðrar byggðir á hættusvæðinu að bíða með að snúa heim uns búið væri að lýsa því opinberlega yfir að öllu væri óhætt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×