Innlent

Og fjarskipti hefja útrás sína í Færeyjum

MYND/Páll Bergmann

Og fjarskipti eignuðust í gær allan hlut í færeyska fjarksiptafyrirtækinu Kall en fyrir viðskiptin áttu Og fjarkskipti rúmlega áttatíu prósent í fyrirtækinu. Kaupin á Kalli eru fyrsta skref útrásar hjá fyrirtækinu.

Og fjarskipti halda hluthafafund í dag þar sem áður boðuð nafna- og skipulagsbreyting verður tilkynnt. Ef nafnabreytingin verður samþykkt ásamt skipulagsbreytingunum, þá verður til móðurfélagið Dagsbrún sem mun eiga og reka félög sem standa í rekstri í fjarskiptaþjónustu, fjölmiðlun, afþreyingu og skyldri starfsemi. Hafa stjórnendur gefið út að líklegt sé að Dagsbrún muni leita erlendis hvað varðar áframhaldandi vöxt félagsins. Eru því kaupin á Kalli fyrsta skrefið í útrás félagsins.

Og fjarskipti munu einnig birta uppgjör sitt fyrir þriðja ársfjórðung og fyrstu níu mánuði ársins í dag. Greiningardeild birti afkomuspá fyrir Og fjarskipti þann sjötta október síðastliðinn og spáði félaginu tvöhundruð og sex milljóna króna hagnaði á þriðja ársfjórðungi. Þetta er rúmlega fjörutíu og tvö prósent hagnaðaraukning miðað við sama ársfjórðung í fyrra. En tekið skal fram að á þessu ári bættust 365 miðlar við samstæðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×