Innlent

Félag fasteignasala klofnað

Franz Jezorski er einn af stofnendum Landsambands fasteignasala sem stofnað er til höfuðs Félagi fasteignasala.
Franz Jezorski er einn af stofnendum Landsambands fasteignasala sem stofnað er til höfuðs Félagi fasteignasala.

Nokkrir löggiltir fasteignasalar hafa tekið sig saman og stofnað Landssamtök fasteignasala þar sem þeim þykir Félag fasteignasala ekki hafa starfað í þágu félagsmanna.

"Því er ekki að leyna að það er almenn óánægja meðal fasteignasala með stjórn félagsins og það er ein af ástæðunum fyrir því að félagið hefur klofnað," segir Franz Jezorski einn af stofnendum Landssamtakana.

"Ástæðan er sú að við teljum að stjórn félagisins hafi farið offari gegn félagsmönnum sínum til dæmis með því að telja fólki trú um það með auglýsingum að sölufulltrúi á fasteignasölu megi ekki sitja fundi með viðskiptavini sínum nema þá ef löggiltur fasteignarsali sé viðstaddur, þetta er beinlínis rangt," segir Franz.

"Svo hafa stjórnarmenn félagsins verið að koma fram í fjölmiðlum og gert lítið úr fasteignasölum og stéttin hefur beðið álitshnekki vegna þessa," bætir hann við.

Hann segir að Landsambandið muni beita sér fyrir því að bæta ímynd stéttarinnar og að sölufulltrúar á fasteignasölum fái frekari menntun og lögvarið starfsheiti. Landsambandið ætli einnig að beita sér fyrir því að settir verði gæðastaðlar sem menn verði að fara eftir við sölu fasteigna.

"Ég fagna því að menn stofni samtök til að bæta fasteignasölu í landinu," segir Björn Þorri Viktorsson formaður Félags fasteignasala. "En ef þetta á að vera til þess, eins og mér sýnist á auglýsingum samtakanna, að berjast eigi fyrir því að réttindalausir aðilar geti gengið í störf fasteignasala þá líst mér ekki á. Ég veit að Franz er fylgjandi því að sölufulltrúar geti gengið frá kauptilboði en þar erum við algjörlega ósammála enda hefur fjöldi fólks lent í vanda vegna þessa. Það er til menntað fólk til að gegna þessum störfum og réttast er gagnvart neytandanum að þeir geri það. Ekki myndi ég láta einhvern gera við tennurnar mínar sem ekki hefði lært tannlækningar af hverju ætti ég þá að treysta einhverjum fyrir aleigu minni sem ekki hefur menntun til," segir Björn Þorri að lokum.

Haukur Geir Garðarsson, varaformaður félagsins, segir að Franz hafi boðið sig fram í stjórn félagsins en ekki hlotið stuðning til og eflaust megi rekja stofnun samtakana til þeirrar útreiðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×