Innlent

Flugöryggi ógnað vegna niðurskurðar

"Flugöryggi á Keflavíkurflugvelli líður fyrir þennan niðurskurð. Áður höfðum við sex tæki til snjóruðnings sem eru nú aðeins þrjú. Það er ekki til mannskapur til þess að vinna þessa vinnu. Þetta kemur niður á flugbrautum og bremsuskilyrðum fyrir flugvélar," segir Vernharð Guðjónsson, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

Slökkviliðsmenn á Keflavíkurflugvelli hafa áhyggjur af öryggi flugvéla á vellinum vegna samdráttar og uppsagna á starfsmönnum. Vernharð telur að niðurskurður á þessari þjónustu sé í beinu samhengi við samdrátt hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli.

"Þetta er kannski táknrænt fyrir það að varnarliðið sé hreinlega að pakka saman," segir Vernharð og bendir á að nýverið hafi gömul kafbátaleitarvél, sem lengi hefur staðið á vellinum sem sýningargripur, verið rifin niður og fjarlægð. "Það vantar einhverja staðfestingu á því sem hér er á ferðinni því að stjórnvöld gefa ekkert upp."

Ásgeir Húnbogason, vann við viðgerðir á snjómoksturstækjum á vellinum en var sagt upp í haust: "Ég lét Davíð Oddsson vita af þessari stöðu mála í september. Ég sendi honum tölvupóst ásamt Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra og stjórnmálamönnum úr öllum flokkum og lýsti ástandinu," segir Ásgeir og bætir við: "Mér þykir áhugaleysi samgönguráðherra á málinu vera undarlegt." Jón Böðvarsson, flugvallarstjóri á Keflavíkurflugvelli, segir spurninguna snúast um þá staðla sem unnið sé eftir: "Ef þeir hafa raunverulegar áhyggjur af flugöryggi þá væri fagmannlegt hjá þeim að tala við þá aðila sem þeir vinna fyrir. Síðan eru til reglur og staðlar sem segja til um hvað þarf til þess að reka flugvöll."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×