Sport

Mourinho er hrokagikkur

Ottmar Hitzfeld, fyrrum þjálfari Bayern Munchen, sagði í viðtali nýlega að sér þætti Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea hrokafullur maður. Þessi orð lét Þjóðverjinn falla þegar hann var spurður út í viðureign Bayern og Chelsea í Meistaradeildinni í vikunni, en Hitzfeld sagðist einu sinni hafa hitt Portúgalann. "Ég hitti hann einu sinni og hann er kaldur og hrokafullur, með allt of háar hugmyndir um sjálfan sig. Maður eins og hann gæti aldrei orðið vinur minn," sagði Hitzfeld. Gárungar á Englandi eru strax farnir að gera því skóna að hinn þýski þjálfari verði næsti þjálfari Manchester United og því séu þessi ummæli hans eins og upphitun fyrir fundi þeirra í Úrvalsdeildinni í framtíðinni, en Hitzfeld er einn þeirra sem nefndur er til sögunnar sem hugsanlegur arftaki Alex Ferguson hjá United. Hitzfeld ákvað á sínum tíma að taka sér frí frá fótboltanum í nokkurn tíma til að eyða tíma með fjölskyldu sinni, en er nú sagður á fullu í enskunáminu, eins og til að undirbúa komu sína í ensku Úrvalsdeildina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×