Erlent

Sjö handteknir í Haag

Hollenskir lögreglumenn umkringdu mikilvægar stjórnsýslubyggingar í höfuðborginni Haag í gær vegna gruns um að hryðjuverk væru í uppsiglingu. Ráðist var inn í hús og sjö manns handteknir í tengslum við málið. „Ég heyrði mikla sprengingu og hélt hreinlega að veggurinn myndi hrynja hjá mér," sagði kona af norður-afrískum uppruna í gær en þá var nágranni hennar handtekinn. Hún sá grímuklædda lögreglumenn draga manninn út og hafði verið bundið fyrir augu hans. Barn grét í íbúð hans. Sex manns til viðbótar, á aldrinum 18-30 ára og allir úr hópi innflytjenda, voru einnig teknir höndum í samhæfðri aðgerð lögreglunnar í Amsterdam, Haag og Almere og verða þeir leiddir fyrir dómara á mánudaginn. Á meðal hinna handteknu var Samir Azzouz, nítján ára, sem á dögunum var sýknaður af ákærum um að ráðgera hryðjuverkaárás vegna skorts á sönnunargögnum. Um svipað leyti umkringdu tvær tylftir lögreglumanna þinghúsið í Haag og upplýsingaskrifstofur ríkisstjórnarinnar. Allt var þó með kyrrum kjörum og virðist ljóst að ef hryðjuverk voru á annað borð í bígerð þá var þeim afstýrt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×