Innlent

Snorrabraut lokað í rúmar 10 vikur

Snorrabraut milli Eiríksgötu og Hringbrautar verður lokað á morgun vegna framkvæmda við undirgöng. Gatan verður lokuð í rúman tvo og hálfan mánuð, eða til 8. september, með tilheyrandi umferðartöfum. Þessar framkvæmdir eru angi af færslu Hringbrautarinnar sem hófst fyrir rúmu ári. Eins og gefur að skilja á þessum stað í miðborg Reykjavíkur má búast við nokkrum umferðartöfum á álagstímum. Jón Halldór Jónasson hjá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar segir búið að kynna þetta vel í hverfinu, enda líði íbúarnir þar mest fyrir lokunina. Búið sé að undirbúa eins mikið og hægt sé án þess að loka og því miður taki gerð undirganganna þetta langan tíma. Bílandi starfsmenn Landspítalans þurfa þó ekki að örvænta því unnt verður að aka inn á bílastæði Landspítalans frá Hringbraut. Jón Halldór segir framkvæmdir við færslu Hringbrautarinnar annars ganga mjög vel. Fyrstu umferð var hleypt á nýja Hringbraut fyrir um hálfum mánuði og verið er að reisa þrjár nýjar göngubrýr. Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir að verkinu yrði lokið í október á þessu ári og segir Jón að allt bendi til að sú áætlun muni standast.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×