Sport

Everton leikmaður til Start?

Knattspyrnufélagið Start í Noregi sem Guðjón Þórðarson þjálfaði fær á morgun þriðjudag til reynslu 31 árs gamlan miðjumann frá Everton, Alex Nyarko. Þetta þykir tíðindum sæta í Noregi enda ekki á hverjum degi sem leikmaður úr ensku úrvalsdeildinni er orðaður við þarlent knattspyrnufélag. Umræddur Nyarko komst í fréttirnar fyrir um 4 árum þegar hann hvarf sporlaust frá Everton. Leikmaðurinn hafði skömmu áður lent í því að stuðningsmaður Everton hljóp inn á völlinn í miðjum leik og reyndi að klæða Nyarko úr liðstreyjunni með þeim fúkyrðum um að hann ætti ekki skilið að klæðast henni, svo léleg væri frammistaða hans. Nyarko brotnaði niður og hvarf á braut daginn eftir leik en skilaði sér á endanum til baka, reyndar löngu seinna. Hann fær einhverra hluta vegna ekki samning sinn endurnýjaðan hjá Everton en ár lifir af honum. Forráðamenn Start hafa hins vegar ekki miklar áhyggjur af því að Nyarko stingi af vegna lélegrar frammistöðu í norska boltanum og hyggjast taka hann með í æfingaferð til La Manga á fimmtudag ef hann lofar góðu á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×