Innlent

Engin starfsemi næstu daga

Engin starfsemi verður í Slippstöðinni á Akureyri næstu daga. Þetta varð ljóst þegar Sigmundur Guðmundsson, skiptastjóri Slippstöðvarinnar á Akureyri, sagði starfsmönnum á fundi nú seinnipartinn að þrotabúið myndi ekki reka stöðina. Þreifingar eru hafnar á Akureyri um að endurreisa stöðina en þær þreifingar hafa ekki enn náð inn á borð skiptastjóra. Gísli Bergsson, trúnaðarmaður starfsmanna, segir menn vonast til að framtíð Slippstöðvarinnar ráðist öðru hvoru megin næstu helgar. Hann segir suma starfsmenn komna í skammtímavinnu og óttast að los komist á mannskapinn ef Slippstöðin verður ekki endurreist fljótlega. Skiptastjóri sagði starfsmönnum á fundinum í dag að áhersla yrði lögð á að greiða sem fyrst þau laun sem menn eiga inni fyrir vinnu sem þeir hafa innt af hendi. Greiðslur vegna uppsagnarfrests eftir gjaldþrot verða hins vegar látnar mæta afgangi. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra segist binda miklar vonir við tilraunir til að endurreisa Slippstöðina og er nokkuð bjartsýn á að það takist þótt hún segi ekki hægt að fullyrða að reksturinn verði í sama formi og áður. Fyrirtækið sé þó mikilvægt fyrir sjávarútveg á landsvísu og þar búi menn yfir mikilli verkþekkingu sem mikilvægt sé að glatist ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×