Erlent

Rita talin munu valda miklu tjóni

Fellibylurinn Rita nálgaðist strönd Texas og Louisiana óðfluga í gær. Umferð var í hnút á helstu flóttaleiðunum, þjóðvegunum inn í land. Jafnvel var óttast að margt fólk yrði enn fast í umferðarteppum eða í bensínlausum bílum þegar bylurinn skylli á, með vindhraða allt upp í 220 km/klst og hamslausri úrkomu. Einnig var óttast að bylurinn ylli miklu tjóni á olíuhreinsistöðvum í Texas og hálflamað þannig olíuiðnað Bandaríkjanna. Allt að 24 manns fórust þegar eldur kom upp í hópferðabíl, sem í voru íbúar elliheimilis sem var verið að flytja í öruggt skjól. Í New Orleans var mikil rigning sem olli því strax í gær að ein viðgerðin á flóðvarnargörðunum brast. Ýtti það undir ótta um að borgin færi aftur á kaf af völdum Ritu. "Það versta sem við óttuðumst að gæti gerst er að gerast. Varnargarðarnir munu bresta ef svo fer fram sem horfir og þar með mun allt svæðið sem áður fór á kaf fara aftur á kaf," sagði Barry Guidry, liðsmaður þjóðvarðliðsins sem unnið hefur að viðgerðum á varnargörðunum í New Orleans. Því var spáð að fellibylurinn skylli snemma í dag á ströndinni á mótum Texas og Louisiana. Leiðin sem búist var við að bylurinn færi virtist myndu hlífa strandbænum Galveston og milljónaborginni Houston við því allra versta. En Rita myndi plægja í gegnum olíuvinnslu- og efnaverksmiðjumiðstöðvarnar í Beaumont og Port Arthur, um 120 km austur af Houston. Almannavarnastjóri Texas, Jack Colley, spáði því að Rita myndi eyðileggja um 5.700 hús í ríkinu og valda um 8,2 milljarða dala tjóni. George W. Bush, sem var ríkisstjóri Texas áður en hann varð forseti, flaug til heimaríkis síns frá Washington í gær. Nærri tvær milljónir íbúa strandsvæðanna fengu fyrirmæli um að yfirgefa heimili sín. Það olli þvílíkum umferðarteppum að sumir gáfust upp á því að reyna að komast leiðar sinnar inn í land og héldu aftur heim. Rútubruninn varð í umferðarteppu á þjóðvegi 45 skammt suðaustur af Dallas. Að sögn vitna virtist eldurinn fyrst hafa kviknað vegna bilunar í vélbúnaði en síðan hefði eldurinn komist í súrefnisgeymana sem hinir öldruðu farþegar höfðu meðferðis, og eftir það hefði ekki orðið við neitt ráðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×