Innlent

Saklaus fórnarlömb verðstríðs

Samkeppnisstofnun hefur fengið fyrirspurnir vegna verðstríðs lágvöruverslana í matvöru. Guðmundur Sigurðsson, forstöðumaður samkeppnissviðs, segir að ákvörðun um hvort eða hvernig brugðist verði við fyrirspurnunum hafi ekki verið tekin enda verðstríðið nýhafið. "Forsvarsmenn annarra matvöruverslana hafa spurst fyrir um hvort leyfilegt sé að gefa matvöru úr verslunum eða selja langt undir kostnaðarverði. Svo hafa smærri matvöruverslanir verið að velta fyrir sér afkomu sinni," segir Guðmundur: "Þær eru saklaus fórnarlömb stríðs á milli stærri aðila." Þórður Björnsson, eigandi hverfisverslananna Teigakjörs, Hlíðakjörs og Sunnubúðarinnar, segir að hann sé uggandi yfir hinni hörðu samkeppni risanna en rólegur og vilji ekki aðgerðir Samkeppnisstofnunar. Hann selji helmingi minni mjólk en áður. Önnur sala hafi lítið breyst. "Við verðum að bregðast við samkeppninni með betri þjónustu. Við erum til dæmis farnir að keyra vöruna heim," segir Þórður. Guðmundur segir ekki ólöglegt að selja vörur undir kostnaðarverði. "Hins vegar getur það verið mjög alvarlegt brot á samkeppnislögum reyni fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu að drepa af sér samkeppni með vörum undir kostnaðarverði," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×